Snjór í efstu hlaupaleiðum
Það eru 10 dagar í Hengil Ultra og hér er fréttaskot af stöðu brautarinnar. Það er meiri snjór í efstu brautinni 106K & 53K heldur en síðustu ár. Brautarstjórarnir okkar byrja að vinna í merkingum og mokstri í þessari viku.
Í Hengill 26K er enginn snjór en hluti af tréverki í kringum brautina hefur skemmst yfir veturinn sem kynni að rugla þá sem ekki hafa farið þessa leið áður. Þetta er tréverk í kringum hverina uppi og niðri við brúna og upp hallann að Reykjadal. Hveragerðisbær er að vinna að viðgerð á þessum hlutum í samvinnu við rekstraraðila og Umhverfisstofnun.
GPS tæki á öllum 100K hlaupurum og sumum 50K
Í 100K ræsingu Hengil Ultra þann 7. júní nk. verða allir hlauparar útbúnir með gps tæki sem fylgist með ferðum hlauparans og gefur upp staðsetningu hlaupara í rauntíma. Valdir hlauparar i 50K verða einnig útbúnir þessum tækjum til að gefa skipuleggjendum hlaupsins yfirsýn og innsýn í hraða og yfirferð þátttakenda. Ekki er vitað til þess að slíkur búnaður hafi áður verið notaður í utanvegahlaupi á Íslandi. Tækið gefur upp nákvæma staðsetningu hvers og eins hlaupara; keppendum til öryggis, skipuleggjendum til gagns bæði í öryggisskyni og yfirsýn við framkvæmd og áhorfendum til upplýsinga.
Þetta er dýr búnaður en stefnan er að á næsta ári verði allir hlauparar í bæði 100K og 50K útbúnir slíku tæki.